Sjálfbærniskýrsla Strætó 2021
Ársreikningur

Árs­reikn­ing­ur 2021

Rekstrarniðurstaða var neikvæð um 439 m.kr. (2020: 459 m.kr.), en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 293 m.kr. á árinu 2021. Lakari afkoma skýrist einkum af því að sú tekjuaukning sem fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir skilaði sér ekki sem rekja má til heimsfaraldursins.

Fargjöld voru 138 m.kr. undir áætlun, ríkisframlag var 774 m.kr undir áætlun, Pant akstursþjónusta var 318 m.kr. undir tekjuáætlun, aðrar tekjur voru 89 m.kr. umfram áætlun. Laun og launatengd gjöld jukust milli ára um 163 m.kr. og námu 2.825 m.kr. (2020: 2.661 m.kr.) en 1. janúar og 1.júní 2021 var stytting vinnuviku starfsmanna sem kostaði félagið um 250 m.kr. Fjöldi ársverka voru 252 (2020: 258).

Heildareignir samkvæmt efnahagsreikningi námu í árslok samtals 3.261 m.kr. og heildarskuldir voru 2.417 m.kr. Eigið fé nam 844 m.kr. Eiginfjárhlutfall félagsins var 26% (2020: 40%). Handbært fé nam 466 m.kr. Heimsfaraldur kórónaveiru hefur haft mikil fjárhagsleg áhrif á starfsemi félagsins síðustu tvö ár og fjárhagsstaða Strætó rýrnað verulega frá upphafi faraldurs. Í desember 2021 var Strætó veitt 300 m.kr. rekstrarlán og horfur á að lausafjárstaða verði erfið fram eftir ári 2022.


Reikn­ings­skil og end­ur­skoð­un

Fjármálasvið Strætó sér um gerð reikningsskila og birtir uppgjör sín ársfjórðungslega. Endurskoðunarnefnd tekur ársreikning félagsins til skoðunar og gefur stjórn álit sitt á reikningsskilunum sem samþykkir og undirritar.

Meginhlutverk endurskoðunarnefndar er að hafa eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits félagsins, innri endurskoðun og áhættustjórnun. Ytri endurskoðandi félagsins Grant Thornton endurskoðun ehf. endurskoðar reikningsskilin einu sinni á ári.

Endurskoðunarnefnd

Endurskoðunarnefnd er skipuð fjórum fulltrúum, þremur skipuðum af borgarstjórn Reykjavíkurborgar og einum skipuðum samkvæmt tilnefningu stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.

Innri endurskoðun er skiptuð af stjórn og heyrir beint undir hana. Innri endurskoðun fer með fjármála- og stjórnsýslueftirlit hjá Strætó. Í því felst að með störfum sínum leggur innri endurskoðun mat á og bætir virkni áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnaráhættu. Innri endurskoðandi er Deloitte ehf.