Sjálfbærniskýrsla Strætó 2021
Árið 2021

Ávarp stjórn­ar­for­manns

Þegar þessi orð eru skrifuð, seint í apríl 2022, er vor í lofti. Misveðrasamur vetur að baki og framundan ekkert annað en sól og sumar. Covid er líka að baki, skulum við vona, og tími til að bretta upp ermar svo hin mikilvæga þjónusta Strætó nái aftur fyrri styrk. Og gott betur, framundan eru stórfelld framfaraskref. Þar munar auðvitað mest um tilkomu Borgarlínunnar, nýs leiðarnets, endurnýjun vagna og auðvitað orkuskipti.

Hjálmar Sveinsson
Stjórnarformaður Strætó
Hjálmar Sveinsson Stjórnarformaður Strætó

Strætó var í talsverðri sókn árið 2019 og fyrstu mánuði ársins 2020. Farþegum fjölgaði jafnt og þétt. Svo kom Covid með miklum samkomutakmörkunum af hálfu ríkisvaldsins. Á tveimur árum varð Strætó fyrir tekjutapi sem nemur 1,5 milljarði, ef miðað er við árið 2019. Því miður reyndist ríkisvaldið ekki tilbúið að bæta fyrirtækinu stórfelldan skaðann. Samt var fyllilega raunhæft að búast við því, ef miðað er við viðbrögð ríkisstjórna í löndunum í kringum okkur. Þar var brugðist við með myndarlegum hætti, væntanlega vegna þess að öflugar almenningssamgöngur eru álitnar mikilvægar. Covidframlag rikisstjórnarinnar hér á landi nam ekki nema einum tíunda af tekjutapi Strætó vegna Covid.

Fyrirtækinu var nauðugur einn kostur að bregðst við með umtalsverðri hagræðingu; fækkun ferða og niðurlagningu næturleiða. Miðað var við að aðgerðirnar yllu eins lítill þjónustuskerðingu og kostur var. Dregið var úr þeim ferðum þar sem notkunin er minnst. Ekki sér enn fyrir endann á þessum aðgerðum en vonir standa til að frá og með næsta hausti komist þjónusta Strætó í svipað horf og hún var fyrir Covid. Nýjustu tölur um innstig í Strætó gefa tilefni til bjartsýni

Mikilvægustu verkefnin á næstu mánuðum og misserum er að ná farþegafjölda aftur í sama horf og hann var árið 2019 og halda svo áfram að laða fólk að þessum vistvæna ferðamáta. Liður í því er nýtt, rafrænt greiðslukerfi sem þróað hefur verið undanfarin ár og mun auka þægindi farþega verulega. Slík kerfi hafa verið notuð með góðum árangri í mörg ár í borgum sem okkur þykir gaman að heimsækja. Útvistun á reksti vagna hefur verið talsvert til umfjöllunar undanfarin misseri. Í skýrsu sem ráðgjafasvið KMPG gerði fyrir fyrirtækið sumarið 2020 kemur fram að kostnaður Strætó bs við rekstur eigin vagna ásamt verkstæði og þvottastöð er talsvert hærri en ef rekstur vagnanna yrði alfarið boðinn út. Tæplega helmingur þeirra vagna sem nú eru í notkun eru í eigu Strætó bs. Í nágrannalöndum okkar, sem búa við mjög góða almenningsvagnaþjónustu, er rekstur vagnaflotans alfarið á hendi einkaaðila.

Allar borgir sem við berum okkur saman við fjárfesta verulega í almenningssamgöngum. Hvergi nokkurs staðar er litið svo á að sjálfkeyrandi bílar, eins og stundum er fullyrt, muni leysa samgönguvandann. Eitt af því sem þröng fjárhagsstaða Strætó sem hefur leitt til er að of hægt hefur gengið að endurnýja vagnaflotann. Það er áhyggjuefni og skýtur skökku við opinbera stefnu um vistvænar samgöngur. Brýnt er að Strætó hafi bolmagn til endurnýja vagnaflotann og taka um leið stór skref í orkuskiptum.

Hjálmar Sveinsson, stjórnarformaður Strætó


Ávarp fram­kvæmda­stjóra

Þegar horft er til baka, þá má segja að stórar breytingar hafi einkennt árið 2021 hjá Strætó. Klapp, nýtt rafrænt greiðslukerfi var formlega tekið í notkun á árinu, gjaldskráin var einfölduð og glænýr vefur leit dagsins ljós. Miklar áskoranir voru einnig áberandi á árinu. COVID-19 faraldurinn hélt áfram að koma illa niður á rekstrinum, byrjunarörðugleikar voru til staðar í Klappinu og netþrjótar brutu sér leið inn í tölvukerfi Strætó í lok árs. Þrátt fyrir mótvind þá er samstilltur hópur starfsfólks hjá Strætó tilbúið að spyrna við fótum og sækja fram með bættri og umhverfisvænni þjónustu.

Jóhannes Svavar Rúnarsson
Framkvæmdastjóri Strætó
Jóhannes Svavar Rúnarsson Framkvæmdastjóri Strætó

Leiðandi afl í umhverfismálum

Strætó er leiðandi afl í orkuskiptum og loftslagsmálum og með hverju ári hefur tekist að draga markvisst úr olíunotkun. Unnið er samkvæmt skýrri stefnu um fjárfesta eingöngu í umhverfisvænum vögnum eins og rafmagns-, metan- eða vetnisvögnum. Dísel vagnar Strætó eru knúnir 15% vetnismeðhöndlaðri lífrænni olíu (VLO), sem dregur úr mengun dísel vagnanna eins mikið og kostur er.

Stefnt er að kolefnislausum vagnaflota Strætó fyrir árið 2030.

 

Klapp greiðslukerfið

Eftir mikinn undirbúning síðastliðin 3 ár var Klapp, rafrænt greiðslukerfi Strætó formlega innleitt þann 16. nóvember 2021. Fyrirmynd kerfisins er þekkt um allan heim og virkar þannig að viðskiptavinir stofna aðgang og skanna síðan snjallkort eða app um borð í vagninum þegar fargjaldið er greitt (e. Account Based Ticketing).  Með innleiðingu kerfisins stökk Strætó yfir nokkrar kynslóðir greiðslukerfa  og er fyrirtækið nú nokkuð framarlega á heimsvísu þegar kemur að greiðslukerfum í almenningssamgöngum.

Eins og gengur og gerist með stór hugbúnaðarverkefni þá gerðu byrjunarerfiðleikar vart við sig eftir að nýjum notendum fjölgaði. Mikil vinna var lögð í að lagfæra og finna þær villur í hugbúnaði og skönnum til þess að bregðast við þeim villum sem gerðu vart við sig. Árið 2022 munum við síðan sjá fleiri nýjungar í Klappinu, eins og eins dags og einnar viku greiðsluþak (e. capping), „pay as you go“ og snertilausar greiðslur með debit- og kreditkortum, Apple Pay eða Samsung Pay.  Það er skoðun okkar hjá Strætó að með upptöku rafræns greiðslukerfis verði hægt að bjóða upp á sveigjanlegri lausnir sem henta öllum í náinni framtíð. Það var orðið löngu tímabært að greiðslukerfi Strætó stígi inn í framtíðina og er þetta í samræmi við stefnumótun sem unnið var að á árunum 2018 og 2019.

 

Einfölduð gjaldskrá

Á árinu voru einnig gerðar breytingar á gjaldskrá Strætó. Í byrjun árs fengu börn 6-11 ára að ferðast frítt í Strætó. Samhliða innleiðingu Klapp greiðslukerfisins var á gjaldskrá Strætó einfölduð og öllum hópum var gert kleift að kaupa mánaðarkort á hagkvæmu verði. Með þessari breytingu varð gjaldskrá Strætó gegnsærri, en eðlilega í miklum breytingum koma þær misjafnlega fram en lagt var upp með að heildarkostnaður meðalheimila hækkaði ekki í þessari breytingu.

Nýr vefur

Nýr vefur Strætó leit dagsins ljós í lok árs 2021. Markmið vefsins er að bæta notendaupplifun, upplýsingagjöf og læsileika. Mikil áhersla er lögð á aðgengi fyrir blinda og sjónskerta. Strætó var í góðu samráði við Blindrafélagið og fylgir WCAG staðli til að tryggja að auðvelt sé að nota skjálesara á vefnum. Nýr vefur býður einnig upp á aukinn sveigjanleika við að tengja saman ýmsar gagnlegar upplýsingar eins og staðsetningu rafhlaupahjóla og upplýsingar um loftgæði.

Á vefnum er einnig hægt að skipta efni yfir á „Auðlesið mál“ (e. Easy Read). Auðlesinn texti er skrifaður á skýru og einföldu máli sem nýtist þeim sem eiga erfitt með að lesa texta. Til dæmis fólki með þroskahömlun, fólki sem er lesblint eða er að læra íslensku. Virknin var unnin í samráði við Landsamtökin Þroskahjálp.

 

Áskoranir

Eins og 2020, þá hafði heimsfaraldurinn mikil áhrif á rekstur Strætó.  Ef horft er til baka yfir árin 2020 og 2021 þá má rekja 1.5 milljarða króna tekjutap til faraldursins á meðan reynt var eftir bestu getu að halda uppi sem bestu þjónustustigi.

Árið 2021 endaði á fjandsamlegri netárás frá erlendum hópi hakkara. Árásaraðilarnir náðu að brjóta sér leið inn í kerfi Strætó og afrita gögn. Eftir árásina var Strætó krafið um greiðslu ellegar gögnunum yrði lekið á netið. Strætó varð ekki við þeim kröfum og sem betur fer er ekkert sem bendir til þess að gögnunum hafi verið lekið.

Það er margt sem bendir til þess að framtíðin sé björt, vissulega eru áskoranir í rekstri, en aðföng hafa hækkað mikið á síðustu misserum sem hefur töluverð áhrif á rekstrarafkomu Strætó, en farþegum er að fjölga hægt og sígandi samhliða því sem tekjur aukast. Fram undan er mikil uppbygging innviða fyrir almenningssamgöngur og spennandi hlutir að gerast. Áfram verður haldið að uppfæra tölvukerfi Strætó með það að markmiði að vera tilbúin undir framtíðina.

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó


Stjórn­ar­hætt­ir

Góðir stjórnarhættir Strætó eiga að tryggja fagmennsku, hagkvæmni, ráðdeild, gegnsæi og ábyrgð í rekstri.

Stjórn Strætó birtir hér yfirlýsingu um stjórnarhætti fyrir árið 2021. Stjórnarhættir vísa til ábyrgðar stjórnar og stjórnenda og því hvernig ákvörðunartaka fer fram, í samræmi við gildandi lög og reglur.


Stjórn­skipu­lag Strætó

Strætó bs. er byggðasamlag og í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu: Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarness.

Stjórn Strætó fer með æðsta vald félagsins samkvæmt lögum, reglum og samþykktum. Meginskyldur stjórnar er að sinna eftirlitshlutverki með starfsemi félagsins.  Hlutverk og skyldur stjórnar eru skilgreind ítarlega í starfsreglum  stjórnar sem byggðar eru á stofnsamningi og eigendastefnu félagsins.

Stjórn Strætó ræður framkvæmdastjóra sem fer með daglegan rekstur í samræmi við þá stefnu sem hún setur. Stjórnin setur félaginu heildarstefnu og framtíðarsýn í samræmi við eigendastefnu og skilgreinir í henni mælikvarða í rekstri félagsins. Stefnan skal í það minnsta fela í sér markmið í umhverfismálum, jafnréttis- og starfsmannamálum.

Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þörf krefur, en stefnt skal að því að þeir verði ekki haldnir sjaldnar en mánaðarlega. Í upphafi hvers árs skal lögð fram starfsáætlun sem hefur að geyma áætlun fyrir reglubundna stjórnarfundi ársins. Á árinu 2021 voru haldnir 17 stjórnarfundir.

Stjórn framkvæmir árlega árangursmat þar sem lagt er mat á störf stjórnar, verklag og starfshætti. Árangursmat stjórnar fór fram í febrúar 2021

Stjórn Strætó 2021

 

Varamenn í stjórn Strætó:

  • Aron Leví Beck, Reykjavík
  • Margrét Halldórsdóttir, Kópavogur
  • Ólafur Ingi Tómasson, Hafnarfjörður
  • Björg Fenger, Garðabær
  • Ásgeir Sveinsson, Mosfellsbær
  • Magnús Örn Guðmundsson, Seltjarnarnes

Framkvæmdastjórn Strætó


Lög, reglur og tilmæli

Strætó starfar á grundvelli sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Í kafla 2 og 3 í stofnsamningi er nánari útlistun á stofnendum, eigendahlutföllum og stjórnskipulagi.

Samkvæmt gr. 3.4 í eigendastefnu eiga stjórnarhættir að tryggja  fagmennsku, hagkvæmni, ráðdeild, gegnsæi og ábyrgð í rekstrinum. Stjórnarmenn skulu í störfum sínum fylgja lögum, eigendastefnu og starfsreglum stjórnar sem og sannfæringu sinni, gæta almannahagsmuna  og hagsmuna byggðasamlagsins. Eigendastefna er aðgengileg á vefsíðu Strætó.

Einnig eiga eftirfarandi lög og reglur við um rekstur Strætó: Lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28/2017, og reglugerð um leyfi til að stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi.

Framsetning stjórnarháttayfirlýsingar 2021 er með hliðsjón af leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem gefnar voru út 1. júlí 2021 (6.útg.) af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland hf. og Samtökum atvinnulífsins. Leiðbeiningarnar eru aðgengilegar á vefsíðu Viðskiptaráðs Íslands.

Strætó uppfyllir ákvæði leiðbeininganna að frátöldum kafla 1 sem fjallar um hluthafa og hluthafafundi, þar sem það á ekki við um félagið. Einnig hefur ekki verið gerð starfskjarastefna, né starfskjaranefnd skipuð. Stefna um sjálfbærni  og fjölbreytileika í tengslum við stjórn, framkvæmdastjórn og æðstu stjórnendur samkvæmt grein 2.9 hefur ekki verið skráð.

Strætó hefur sett sér ítarlegar starfsreglur, siðareglur og stefnumörkun sem hægt er að finna á  heimasíðu Strætó. Helstu stefnur eru: Jafnlauna-, jafnréttis-, mannauðs-, persónuverndar-, þjónustu-, umhverfis-, öryggis- og innkaupastefna.

Innra eftirlit og áhættustjórnun

Innra eftirlit

Stjórn ber ábyrgð á því að til staðar sé virkt kerfi innra eftirlits og áhættustjórnunar, það sé skjalfest og virkni þess sannreynd reglulega. Innra eftirlit skal veita hæfilega vissu um; að félagið nái árangri og skilvirkni í starfsemi í samræmi við markmið félagsins; áreiðanleika og réttmæti fjárhagsupplýsinga sem veittar eru ytri aðilum og fylgt sé lögum og reglum sem gilda um starfsemina. Við uppbyggingu á innra eftirliti er tekið mið af ramma COSO, sem er alþjóðlegur viðurkenndur rammi um innra eftirlit.

 

Áhættustjórnun er ferli til að greina og mæla þá áhættuþætti sem komið geta í veg fyrir að félagið nái settum markmiðum.

Árlega skilgreinir Strætó þá áhættuþætti sem félagið þarf að takast á við og skilgreinir viðbrögð við þeirri áhættu sem um ræðir. Strætó flokkar áhættuþætti sína í eftirfarandi:

 

Kjarnaáhætta fylgir kjarnastarfsemi eins og hún er skilgreind í eigendastefnu Strætó, þ.e. að „starfrækja almenningssamgangnaþjónustu á svæði eigenda sinna með samræmdu leiðakerfi og gjaldskrá.“

 

Fjárhagsleg áhætta skiptist í eftirfarandi undirflokka:  Markaðsáhætta, þ.e. áhrif markaðssveiflna á fjárhagslegan styrk Strætó. Lausafjáráhætta, þ.e. geta Strætó til að mæta rekstrarútgjöldum, standa undir greiðslubyrði lána, sinna reglulegu viðhaldi, endurnýja vagnaflota og ráðast í aðrar nauðsynlegar fjárfestingar. Mótaðilaáhætta, þ.e. áhrif hugsanlegra vanskila viðskiptavina á félagið, t.d. að eigendur og viðskiptamenn hafi fjárhagslega burði til að standa við skuldbindingar sínar við Strætó.

 

Rekstraráhætta felur í sér áhættu vegna taps af ófullnægjandi eða gölluðum innri kerfum, vegna starfsmanna eða vegna ytri þátta, s.s. lagalegrar áhættu. Um er að ræða áhættu sem tengist starfsmönnum, ferlum og kerfum.

Til að tryggja að reikningsskil Strætó séu í samræmi við sveitarstjórnarlög og settar reikningsskilareglur, hefur félagið skilgreint ábyrgðasvið, eðlilega aðgreiningu starfa, reglulega skýrslugjöf og skýrar verklagsreglur og verkferla. Reglulegt eftirlit með afkomu og fylgni við samþykkta fjárhagsáætlun. Fjármálasvið leggur ársfjórðungslegt uppgjör fyrir stjórn.